13.8.2008 | 00:35
Meyjardans
Í kvöld hitti ég hinar útvöldu vinkonur mínar úr Meyjardansinum, Hóbbu, Björk og Særúnu. Við hittumst til að plana haustferð í sumarbústað. Þetta gerum við alltaf af og til, förum í sumarbústað, borðum góðan mat, dekrumst eitthvað og píumst. Förum í göngutúra.
Við höfum stundum leyft mökum og öðrum fylgifiskum að koma með en stundum er þörf fyrir að hittast bara í vinkonuspjalli og fara örlítið á trúnó. Upphaflega vorum við fimm þessar kátu meyjar í dansinum, en ein okkar er fallin frá fyrir aldur fram og minnumst við hennar alltaf við slík tilefni og skálum fyrir henni --- Siggunni okkar-hvar sem hún er.
Eitt skiptið fyrir óralöngu dvöldum við helgi eina í sumarbústað á Flúðum. Við vorum með fullt af góðum mat og ætluðum að dekra verulega við okkur. Keyptum okkur t.d. allar baðhúfur sem þá voru til siðs til að fara með í heita pottinn. Eitthvað var veðrið leiðinlegt og við mikið inni að lesa. Þarna var samankomið mikið úrval verka eftir Snjólaugu Braga og lásum við margar bækur hennar og hittumst svo og ræddum innihaldið. Ein sögupersónan var trúlofuð bifvélavirkja sem henni þótti ákaflega óspennandi kostur: Hún sá fyrir sér slétta braut framundan með honum, öruggar tekjur, hús og börn og bíl. En ó nei það var ekki það sem hana dreymdi um. Hún gat ekki hugsað sér að eignast mann sem lægi undir bílum allan daginn og væri með sorgarendur undir nöglunum. Ákaflega óspennandi að hennar mati. Hún hætti við hann svo hún gæti farið að veltast um með draumóramanni sem gerði ekkert nema drekka hvítvín og borða smákökur.
Ég segi þá fyrir mig. Mætti ég heldur biðja um bifvélavirkjan með öruggar og góðar tekjur, þrátt fyrir sorgarrendur undir nöglunum.
En að þessu sinni er ætlunin að fara fyrst við stelpurnar saman einar en seinni part helgarinnar mega menn og börn koma.
Athugasemdir
Hvernig væri að þið skrifuðu samsvarandi gamanbók um pilta sem vilja bara maka sem drekka dreymandi rauðvín og svífa um á bleikum skýjum. Svo getið þið lesið árangurinn upp i næsta stórafmæli þar sem mér verður boðið. Svona til að ég fái að hlæja mig máttlausa. Þú veist að hlátur gefur lífinu aukið gildi, meira að segja sagt geta lengt það**). Annars óska ég ykkur góðrar skemmtunar á trúnó.
Kristín Dýrfjörð, 13.8.2008 kl. 09:34
Ég þekki ekki til höfundar sem er karlmaður og sambærilegur við Snjólaugu Braga
Bergljót B Guðmundsdóttir (IP-tala skráð) 13.8.2008 kl. 10:49
Sæl Systa, gaman að rekast á skrifin þín og ekki síður að fá um leið örlitla innsýn í hvað á daga gamalla skólasystra hefur drifið - ég verð örugglega fastagestur á síðunni þinni.
Umm Snjólaug Braga, ég var búin að gleyma henni. Samt var sú tíð að ég sporðrenndi sögunum hennar eins og heitum lummum minnir að ein hafi heitið Lokast inni í lyftu - þvílík dramatík.
Ingibjörg Margrét , 13.8.2008 kl. 17:18
Neibb datt það í hug, þess vegna eigið þið að semja þær. Það er gap á markaðnum, tækifæri fyrir ykkur til að verða ríkar og frægar og ég veit ekki hvað og svo fæ ég að hlæja og hlæja og hlæja...
Kristín Dýrfjörð, 13.8.2008 kl. 17:44
Sæl Imba
Einitt. Lokast inni í lyftu sem endar a orðunum:"Átti þessi lyfta eftir að ráða örlögum lífs míns" Eða eitthvað á þá leið.
Bergljót B Guðmundsdóttir, 13.8.2008 kl. 20:50
Mér sýnast nú lyfturnar í Ráðhúsinu vera ansi örlagaríkar - sérstaklega mikilvægt er að þær fari alla leið niður í bílakjallara. Ég held að pólitísk örlög hafi nú bara næstum ráðist í lyftum undanfarið - var Snjólaug ekki að meina svoleiðis örlög?
Kristín Dýrfjörð, 14.8.2008 kl. 00:03
MÉR FINNST ÞÚ EKKI MJÖG RÓMANTÍSK NÚNA kRISTÍN
Bergljót B Guðmundsdóttir, 14.8.2008 kl. 08:36
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.