Saumó

Komin úr löngu bloggfríi, sumarfríi, námsleyfi og byrjuð að vinna aftur. Stundum er gott að kúpla alveg frá og fara inní blöðru. Sofna seint, vakna seint hugsa lítið og njóta meira.

Og síðan ...tekur alvaran við og ábyrgðin og hugsunin fer aftur í gang, svolítið hæg til að byrja með en þetta kemur.

Ég hef verið að velta fyrir mér hinum ýmsu samfélögum sem við tilheyrum eða hlutverk sem við gegnum og gerir okkur að því sem við erum. Ég er t.d. kona, móðir, dóttir, einstæð, sérkennsluráðgjafi, leikskólakennari, nemi, kennari, fitubolla, miðaldra, meðlimur í ýmsum samfélögum s.s. saumaklúbbi, Úrvali (úrval leikskólakennara), stéttafélagi, fjölskyldu, alls konar hópum og þetta hefur allt gert mig að því sem ég  er ásamt því að vera sú sem fædd er ég, samspil erfða og umhverfis.

Nú ætla ég aðeins að segja frá saumaklúbbnum mínum eða saumó eins og við svo frumlega nefnum hann. Þessi saumaklúbbur er nú orðinn næstum 30 ára gamall og var stofnaður af menntaskólavinkonum af því tilefni að það var svo fyndið að vera í saumaklúbbi. Í þá daga sá maður fyrir sér miðaldra kellingar sem drukku úr mávabollastelli og stunduðu hannyrðir þ.e. fínar frúr. Á þeim árum þótti manni orðið "fín frú" jaðra við guðlast og það ætlaði maður sér aldrei að verða. Í okkar saumaklúbbi var eiginlega bannað að koma með hannyrðir. Hann átti að vera til að slúðra, hittast og ræða hin ýmsu mál. Í upphafi var hist sjaldan en úthaldið var gott og fljótlega urðum við að velja helgar til að hittast því oft var setið og spjallað til morguns og það gekk ekki með vinnudag eftir.  Nú hittumst við oftar og úthaldið í hvert sinn er minna. Það telst seint að fara heim um 1-2 leytið.

Við erum 7 talsins í saumó og þetta samfélag gerir ýmislegt fleira en að hittast og háma í sig veitingar. Við hjálpum hver annarri ef þurfa þykir með veislur og ef þarf að gera eitthvað og er þá nóg að senda út hjálparbeiðni og viti menn, vinkonurnar koma og hjálpa. Við hlæjum mikið og grínumst og ræðum allt mörgulegt.  Síðast hittumst við í grasagarðinum á kaffi Flóru (eins og hinar rosknu konurnar)  og áttum góða stund í sólinni. Ekki veit ég hvar eða hernig við hittumst næst en vona að það verði fljótlega.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristín Dýrfjörð

He heheh ég held að það fari að styttast í mávastellið hjá ykkur, nema að þið látið það verða Flóru Daniku svona í stíl við kaffihúsið. Og svo eruð þið nú allar hver annarri fínni með hatta og hvað eina.

Kristín Dýrfjörð, 6.8.2008 kl. 18:00

2 Smámynd: Bergþóra Jónsdóttir

Kristín mín, ertu frá þér.  Það er miklu styttra í að við tökum upp pappaglösin og pappadiskana, svo við þurfum ekki að standa í þessu djös...ves.... að vaska upp.

Bergþóra Jónsdóttir, 6.8.2008 kl. 22:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband