Steingrímur Eyfjörð Einarsson afi minn

Var að skoða blogg hjá Kristínu Dýrfjörð og stelst til að setja hér á mitt blogg það sem hún rifjar upp um afa minn hann Steingrím og læt ég athugasemd Beggu fylgja með:

Í rassgatinu á sjálfum sér, segist hann vera slæmur

Þessi færsla er sérstaklega skrifuð fyrir Systu vinkonu mína. Hún fjallar nefnilega um afa okkar. Þeir voru samferðamenn um tíma á Siglufirði og virðist sem afi minn Kristján hafi fótbrotnað og fengið gyllinæð ofan í brotið. Læknir hans var Steingrímur afi Systu. Honum hefur þótt þetta kómísk og sett saman eftirfarandi vísubrot.

Fóturinn á honum finnst mér er
fremur batadræmur.
Í rassgatinu á sjálfum sér
segist hann vera slæmur.
__________________ 
Höfundur:
Steingrímur Einarsson, læknir f.1894 - d.1941
Um höfund:
Steingrímur Eyfjörð Einarsson var fæddur á Hömrum í Hrafnagilshreppi, Eyf. Faðir hans var Einar Jónsson bóndi í Myrkárdal og Rósa Lofsdóttir húsfr. s.st. Starfaði við lækningar í Bandaríkjunum um tíma en sjúkrahúslæknir á Siglufirði frá 1928 til dánardags.
Heimild:
Í vísnasafninu má finna fjölda vísa eftir Steingrím.
Tildrög:
Um Kristján Dýrfjörð er fótbrotnaði og fékk líka gyllinæðabólgu.
Athugasemd frá Beggu:

Á ég þá ekki að koma með þær tvær sem ég kann eftir Steingrím.  Systa mín, þú hefur oft heyrt mig fara með þær.  Sú fyrri er um vel þekktan mann, Gunnar Schram á Akureyri, en hin er um strák sem var að hnýstast í bókhaldið í Síldarverksmiðjunum eða Kaupfélaginu, og virðist - samkvæmt vísunni hafa verið lesblindur, nema að bókhaldarinn hafi verið svona illa skrifandi. Hann var alltént að reyna að stauta sig út úr því sem þar stóð, þegar Steingrím bar að. Vísan þarfnast útskýringa, sem koma á eftir. 

Fyrst sú um Gunnar: 

Gengur fram um drambsins damm

dólgur stramm en sálin gramm.

Sér til skammar drekkur dramm,

drullupramminn Gunnar Schramm.   

Og þá strákurinn í bókhaldinu: 

Marglit elti Talitas

Tilipus sig undan dró

Pilturinn á pappír las:

píníngar í despíó. 

 

Skýringin:  Frú Margrét vær næst á eftir Karitas á listanum, Filipus dró pöntun til baka.  Pilturinn las á pappírinn:  Peningar í desember.

 

Og smá saga í viðbót.  Steingrímur Eyfjörð tók á móti pabba mínum í september 1932.  Amma hafði miklar áhyggjur af því að pabbi var með eins og tvö horn úr höfðinu, (svona eins og sum nýfædd börn eru), nema hvað ömmu minni fannst þetta ekki í lagi, og færði þessar áhyggjur sínar í tal við doktorinn. 

Hann svaraði:

"Vertu alveg róleg Sigríður mín, þegar hann stækkar, þá tollir bara betur á honum hatturinn."

Ein vísa enn:

Sé orðunum raðað í óbundið mál
erindið breytist í nafni.
Efni að móta í stuðlastál
Steingríms er enginn jafni.

Blush Vona að Kristín fyrirgefi mér það að taka svona af hennar síðu


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristín Dýrfjörð

Bara hið besta mál. **)

Kristín Dýrfjörð, 6.8.2008 kl. 23:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband