Meyjardans

Í kvöld hitti ég hinar útvöldu vinkonur mínar úr Meyjardansinum, Hóbbu, Björk og Særúnu.  Við hittumst til að plana haustferð í sumarbústað. Þetta gerum við alltaf af og til, förum í sumarbústað, borðum góðan mat, dekrumst eitthvað og píumst. Förum í göngutúra.

Við höfum stundum leyft mökum og öðrum fylgifiskum að koma með en stundum er þörf fyrir að hittast bara í vinkonuspjalli og fara örlítið á trúnó. Upphaflega vorum við fimm þessar kátu meyjar í dansinum, en ein okkar er fallin frá fyrir aldur fram og minnumst við hennar alltaf við slík tilefni og skálum fyrir henni --- Siggunni okkar-hvar sem hún er.


Eitt skiptið fyrir óralöngu dvöldum við helgi eina í sumarbústað á Flúðum. Við vorum með fullt af góðum mat og ætluðum að dekra verulega við okkur. Keyptum okkur t.d. allar baðhúfur sem þá voru til siðs til að fara með í heita pottinn. Eitthvað var veðrið leiðinlegt og við mikið inni að lesa. Þarna var samankomið mikið úrval verka eftir Snjólaugu Braga og lásum við margar bækur hennar og hittumst svo og ræddum innihaldið.  Ein sögupersónan var trúlofuð bifvélavirkja sem henni þótti ákaflega óspennandi kostur: Hún sá fyrir sér slétta braut framundan með honum, öruggar tekjur, hús og börn og bíl. En ó nei það var ekki það sem hana dreymdi um. Hún gat ekki hugsað sér að eignast mann sem lægi undir bílum allan daginn og væri með sorgarendur undir nöglunum. Ákaflega óspennandi að hennar mati. Hún hætti við hann svo hún gæti farið að veltast um með draumóramanni sem gerði ekkert nema drekka hvítvín og borða smákökur.

Ég segi þá fyrir mig. Mætti ég heldur biðja um bifvélavirkjan með öruggar og góðar tekjur, þrátt fyrir sorgarrendur undir nöglunum.

En að þessu sinni er ætlunin að fara fyrst við stelpurnar saman einar en seinni part helgarinnar mega menn og börn koma.


Clapton og hinsegin dagar

Ég fór að hlusta á Clapton á föstudagskvöldið ásamt vinkonu minni. Við komum snemma og fengum stæði frekar nálægt sviðinu svo við höfðum ágætt útsýni á goðið og hans fylgifiska.

Við stóðum frá hálfátta til tónleikaloka, og svitnuðum og ég var farin að finna til í öllum skrokknum þangað til Clapton fór að spila gömlu lögin sín, þá var eins og fyrri töfra allir verkir hurfu og svitinn þurrkaðist upp ( þá varð ég ung í annað sinn.) Mér fannst tónleikarnir mjög góðir og Clapton gamli í essinu sínu. Ég hafði búist viðað hann væri orðinn fyrirgengilegur en hann leit vel út og var ekki að sjá að þarna færi gamall maður, held hann hafi bætt á sig og fer það honum vel.  Þarna voru líka frábærir tónlistarmenn með honum og blúsfílingurinn góður. Ég saknaði þó margra gamalla góðra laga. Skyldi Elían í sætunum líka hafa svitnað? Eða svitna þau ekkert?

Daginn eftir fór ég að skoða hinsegin gönguna og er gleðiganga mikið réttnefni. Það er ekki hægt annað en að smitast af gleðini sem þarna ríkir og fólkið í göngunni var glæsilegt. Fór svo á kaffihús með vinu minni og sátum dágóða stund á kaffi París og nutum góða veðursins og mannlífsins.


"Þetta er bara lítið þorp og það þrífst ekkert svona hér"

Ég lagði leið mína ásamt fleirum um daginn í Slevoginn, nánar tiltekið í kirkjugarðinn á Stönd. Var að huga að leiðum ástvina sem þar eru grafnir. Eftir að hafa vökvað leiðin og kíkt í kirkjuna og á nokkra seli að leika sér í flæðarmálinu ákváðum við að koma við einhvers staðar og fá okkur kaffi. Að þesssu sinni komum við ekki við í T-bænum, sem er notalegt og gott kaffihús í Selvoginum þar sem ætíð er vel á móti manni tekið og veitingar mjög góðar. Nei ég hafði heyrt að það væri komið nýtt kaffihús í Þorlákshöfn og af nokkurri nýungagirni og eftirvæntingu ókum í Þorlákshöfn. Við keyrðum nokkuð lengi um göturnar en ekki fannst neitt kaffihúsið. Þá rákum við augun í eitthvað hús sem á stóð Svarti sauðurinn. Við kíktum þarna inn. Inni var frekar tómlegt og þetta líktist frekar veitingahúsi en kaffihúsi. Fram kom kona nokkur og við spurðum hvort hún væri nokkuð með kaffi. "Nei" þarna var bara matsala. Þá spurðum við hvort ekki væri kaffihús í bænum. Hún brást hin versta við og sagði með þó nokkrum þjósti: "Nei það er ekkert kaffhús hér, þetta er bara lítið þorp og það þrífst ekkert svona hér, en ég get svosem selt ykkur kaffi".Mér verður sjaldan orðavant en það kom svo á mig að ég svaraði ekki, kvaddi ekki, en gekk bara út. Þá varð bróður mínum að orði: "það er ekki nema von að slíkt þrífist ekki ef þetta eru móttökurnar sem gestir fá"

Við fórum á Bláa hafið og þar rákumst við á þetta fína kaffihlaðborð og allir fóru ánægðir heim. Og þá er sagan búin.

 Strandarkirkja í Selvogi  Strandarkirkja í Selvogi


Síðsumarsterror

Fólkið situr úti við kaffihúsin og spjallar og hlær. Fólkið er glatt af því að sólin skín og gaman að sitja úti við og skoða mannlífið. Svona eru sólardagar í Reykjavík, en nú er kominn sá tími þar sem sama myndin blasir við en við sjáum allt í einu einhvern spretta á fætur frá kaffinu sínu eða bjórnum, baða höndum í allar áttir og dansa villtan stríðsdans. GEITUNGARNIR er byjraðir að abbast upp á fólk og eru herskárir. Það bjargar manni enginn. Það þýðir ekkert að hringja í neyðarlínuna og biðja lögregluna að skerast í leikinn. Þú verður að berjast við þennan terror einn þíns liðs.

Hér áður birtust fréttir um  það í blöðum ef geitungur birtist í húsi hjá fólki og lögreglan var beðin um að koma og ráða niðurlögum hans og lögreglan gerði það með glöðu geði. Ég hugsa að það væri ekki vel séð hjá neyðarlínunni og lögreglunni ef þeir fengu slíkar hjálparbeiðnir nú á tímum og sennilega álitið gabb útkall. Það er gaman að velta fyrir sér hvernig tímarnir breytast með nýjum íbúum landsins (geitungarnir) Ætli það sé nokkuð hægt að kalla þá nýbúa lengur.

Eins var það frekar sjaldgæf sjón hér fyrr á árum að sjá fólk að tala við sjálft sig á göngu bænum, nú hins vegar er það orðið algeng sjón. Þó er þetta fólk ekki að tala við sjálft sig heldur nota handfrjálsan búnað á símana sína og þykir ekkert að slíkri hegðun í dag en á árum áður hefði sá sem hagaði sér þannig verið talinn undarlegur í meira lagi.

 

 


Steingrímur Eyfjörð Einarsson afi minn

Var að skoða blogg hjá Kristínu Dýrfjörð og stelst til að setja hér á mitt blogg það sem hún rifjar upp um afa minn hann Steingrím og læt ég athugasemd Beggu fylgja með:

Í rassgatinu á sjálfum sér, segist hann vera slæmur

Þessi færsla er sérstaklega skrifuð fyrir Systu vinkonu mína. Hún fjallar nefnilega um afa okkar. Þeir voru samferðamenn um tíma á Siglufirði og virðist sem afi minn Kristján hafi fótbrotnað og fengið gyllinæð ofan í brotið. Læknir hans var Steingrímur afi Systu. Honum hefur þótt þetta kómísk og sett saman eftirfarandi vísubrot.

Fóturinn á honum finnst mér er
fremur batadræmur.
Í rassgatinu á sjálfum sér
segist hann vera slæmur.
__________________ 
Höfundur:
Steingrímur Einarsson, læknir f.1894 - d.1941
Um höfund:
Steingrímur Eyfjörð Einarsson var fæddur á Hömrum í Hrafnagilshreppi, Eyf. Faðir hans var Einar Jónsson bóndi í Myrkárdal og Rósa Lofsdóttir húsfr. s.st. Starfaði við lækningar í Bandaríkjunum um tíma en sjúkrahúslæknir á Siglufirði frá 1928 til dánardags.
Heimild:
Í vísnasafninu má finna fjölda vísa eftir Steingrím.
Tildrög:
Um Kristján Dýrfjörð er fótbrotnaði og fékk líka gyllinæðabólgu.
Athugasemd frá Beggu:

Á ég þá ekki að koma með þær tvær sem ég kann eftir Steingrím.  Systa mín, þú hefur oft heyrt mig fara með þær.  Sú fyrri er um vel þekktan mann, Gunnar Schram á Akureyri, en hin er um strák sem var að hnýstast í bókhaldið í Síldarverksmiðjunum eða Kaupfélaginu, og virðist - samkvæmt vísunni hafa verið lesblindur, nema að bókhaldarinn hafi verið svona illa skrifandi. Hann var alltént að reyna að stauta sig út úr því sem þar stóð, þegar Steingrím bar að. Vísan þarfnast útskýringa, sem koma á eftir. 

Fyrst sú um Gunnar: 

Gengur fram um drambsins damm

dólgur stramm en sálin gramm.

Sér til skammar drekkur dramm,

drullupramminn Gunnar Schramm.   

Og þá strákurinn í bókhaldinu: 

Marglit elti Talitas

Tilipus sig undan dró

Pilturinn á pappír las:

píníngar í despíó. 

 

Skýringin:  Frú Margrét vær næst á eftir Karitas á listanum, Filipus dró pöntun til baka.  Pilturinn las á pappírinn:  Peningar í desember.

 

Og smá saga í viðbót.  Steingrímur Eyfjörð tók á móti pabba mínum í september 1932.  Amma hafði miklar áhyggjur af því að pabbi var með eins og tvö horn úr höfðinu, (svona eins og sum nýfædd börn eru), nema hvað ömmu minni fannst þetta ekki í lagi, og færði þessar áhyggjur sínar í tal við doktorinn. 

Hann svaraði:

"Vertu alveg róleg Sigríður mín, þegar hann stækkar, þá tollir bara betur á honum hatturinn."

Ein vísa enn:

Sé orðunum raðað í óbundið mál
erindið breytist í nafni.
Efni að móta í stuðlastál
Steingríms er enginn jafni.

Blush Vona að Kristín fyrirgefi mér það að taka svona af hennar síðu


Saumó

Komin úr löngu bloggfríi, sumarfríi, námsleyfi og byrjuð að vinna aftur. Stundum er gott að kúpla alveg frá og fara inní blöðru. Sofna seint, vakna seint hugsa lítið og njóta meira.

Og síðan ...tekur alvaran við og ábyrgðin og hugsunin fer aftur í gang, svolítið hæg til að byrja með en þetta kemur.

Ég hef verið að velta fyrir mér hinum ýmsu samfélögum sem við tilheyrum eða hlutverk sem við gegnum og gerir okkur að því sem við erum. Ég er t.d. kona, móðir, dóttir, einstæð, sérkennsluráðgjafi, leikskólakennari, nemi, kennari, fitubolla, miðaldra, meðlimur í ýmsum samfélögum s.s. saumaklúbbi, Úrvali (úrval leikskólakennara), stéttafélagi, fjölskyldu, alls konar hópum og þetta hefur allt gert mig að því sem ég  er ásamt því að vera sú sem fædd er ég, samspil erfða og umhverfis.

Nú ætla ég aðeins að segja frá saumaklúbbnum mínum eða saumó eins og við svo frumlega nefnum hann. Þessi saumaklúbbur er nú orðinn næstum 30 ára gamall og var stofnaður af menntaskólavinkonum af því tilefni að það var svo fyndið að vera í saumaklúbbi. Í þá daga sá maður fyrir sér miðaldra kellingar sem drukku úr mávabollastelli og stunduðu hannyrðir þ.e. fínar frúr. Á þeim árum þótti manni orðið "fín frú" jaðra við guðlast og það ætlaði maður sér aldrei að verða. Í okkar saumaklúbbi var eiginlega bannað að koma með hannyrðir. Hann átti að vera til að slúðra, hittast og ræða hin ýmsu mál. Í upphafi var hist sjaldan en úthaldið var gott og fljótlega urðum við að velja helgar til að hittast því oft var setið og spjallað til morguns og það gekk ekki með vinnudag eftir.  Nú hittumst við oftar og úthaldið í hvert sinn er minna. Það telst seint að fara heim um 1-2 leytið.

Við erum 7 talsins í saumó og þetta samfélag gerir ýmislegt fleira en að hittast og háma í sig veitingar. Við hjálpum hver annarri ef þurfa þykir með veislur og ef þarf að gera eitthvað og er þá nóg að senda út hjálparbeiðni og viti menn, vinkonurnar koma og hjálpa. Við hlæjum mikið og grínumst og ræðum allt mörgulegt.  Síðast hittumst við í grasagarðinum á kaffi Flóru (eins og hinar rosknu konurnar)  og áttum góða stund í sólinni. Ekki veit ég hvar eða hernig við hittumst næst en vona að það verði fljótlega.

 

 


Fitubollusportföt?

Ég hef verið að undirbúa mig andlega fyrir að hefja líkamsrækt á ný. En fyrir mig er svona andlegur undirbúningur nauðsynlegur. Ég fór meira að segja í íþróttavöruverslun og fjárfesti í leikfimisfötum, en það var nú ekki heiglum hent.  Ég þurfti nefnilega að finna æfingaföt í yfirstærð og þá er ekki um auðugan garð að gresja. Eins og við allar vitum sem erum stórar stelpur eru til fitubollubúðir sem sérhæfa sig í fallegum fatnaði fyrir feitar konur. Stundum er meira að segja hægt að fá á sig föt í öðrum dömubúðum.

En íþróttavöruverslanir eru ekki með mikið á boðstólum fyrir okkur sem tilheyrum samfélagi feitra kvenna. En hvernig eigum við að byrja á því að hreyfa okkur meira ef það er svona erfitt að fá tilheyrandi flíkur?  Þarf maður að þekkja saumakonu/mann? Og hvað ætli það kosti nú?

Eftir mikla leit fann ég þó eitthvað sem ég get notað en auðvitað ekki það sem ég helst vildi. Því miður ekki til í minni stærð. En ég ætla samt að láta til skarar skríða þó ég verði ekki flottust. En kannski er til einhver svona búð sem selur sport/útivistarfatnað fyrir okkur stóru konurnar (og karlana líka), en ég bara veit ekki um hana. Samt erum við ekki svo sjaldgæfar. Ég hef til dæmis séð nokkuð margar svona konur á öllum aldri.

Jæja best að fara að sökkva sér niður í fræðimannastörfin og reyna að afkasta sem mestu á sem stystum tíma svo ég komist út í sólina áður en hún hverfur.


Sumarblús

Komið sæl

Nú er drengurinn minn kominn úr sveitinni þar sem hann hafði þann starfa að reka kýr. Hann var sumsé kúarektor. Þetta fórst honum afar vel úr hendi. Hann er tíu ára gamall og sá um þetta verkefni ásamt einum 7 ára.  Hann undi sér stórvel í sveitinni og er ákveðinn í að fara aftur seinna í sumar.

Ég sit enn og þykist vera að skrifa ritgerð og gera rannsókn. Júlímánuður er ekki alveg rétti tíminn fyrir það. Það er erfitt að ná í viðmælendur og þeir eru á fartinni. Það eru líka leiðbeinendur og undirrituð er mjög tvístruð í hugsun á svona fögrum dögum og með pínkulítið frjókornaofnæmi. Þá er erfitt að halda sér við efnið (allt góðar flóttaleiðir).

Þarf nú að drífa mig heim og taka til í ísskápnum sem er fullur af ónýtum mat. Maður ætlar að vera hagsýnn og kaupa fram í tímann en skipulagið er alltaf eitthvað að riðlast og börnin koma ekki í mat og þar með er sá draumur úti og best að fara að kaupa daglega. Ég kveð ykkur þá í bili.

 


Fyrsta blogg

Er bara að byrja að blogga. Hver veit hvar það endar eða hvort ég verði duglerg við þessa iðju. Ætti frekar að vera að stúdera en er eitthvað löt við það.

P1020007P1020100P1020031


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband